top of page

Meðhöndlun trjáfræs fram yfir spírun eftir Svein Þorgrímsson

GARÐYRKJURITIÐ 2017

Meðhöndlun trjáfræs

fram yfir spírun

Sveinn Þorgrímsson


Söfnun og sáning fræja er einföld og ódýr leið til að afla efniviðar fyrir ræktunarstarfið. Framboð af fræi fer eftir árferði og talsvert af því sem til fellur mun ekki spíra. Heit og löng sumur leiða til mikillar blómmyndunar sumarið á eftir og má þá búast við góðri fræframleiðslu einkum ef vorið er sólríkt og þurrt. Spírun tekur mislangan tíma eftir tegundum. Algengt er að fræ spíri ekki fyrr en þau hafa legið í jörðu fram á næsta vor eða fengið jafngildi þess með viðeigandi meðhöndlun. Þá er líkt eftir umhverfisþáttum frá fræfalli að hausti til spírunar að vori. Beitt er svokallaðri kaldörvun við 2-4°C sem líkir eftir vetrardvala. Flestar algengar trjátegundir sem eru í ræktun hér á landi spíra við þessar aðstæður.

Fræ tegunda sem koma úr mildari veðráttu gætu þurft viðbótar heitörvun við 10-20°C hita áður en kaldörvun hefst, sem endurspeglar hlýjar haustvikur áður en vetur gengur í garð. Við frætöku er aldinið þroskað en fræfóstrið sjálft er það ef til vill ekki en þess er þörf áður en fræið mætir vetrarkuldanum. Þá er örvunarferlið orðið tvískipt (hlýr þroskatími+kaldur dvalartími).

Nokkrar tegundir sem rækta má hér á landi gætu þurft enn lengri örvunartíma og spírun gæti dregist fram á annað ár. Afkoma enn annarra tegunda byggist á dreifingu fræja með dýrum, einkum fuglum. Spírun er þá háð því að fræin hafa farið um meltingarveg þeirra. Til að líkja eftir því eru fræ ýfð á yfirborði og jafnvel ætt með veikri sýru. Það er nauðsynlegt til að vatn komist í gegnum fræskurnina að fræfóstrinu.


Aldingerð og söfnun

Meðhöndlun fræs fer að talsverðu leyti eftir gerð aldinsins. Könglum og fræreklum, eins og af barrtrjám, birki og elri, má safna frá því síðla hausts og fram á vetur ef fræheldni leyfir. Könglar breyta um lit með þroska t.d. úr grænu eða fjólubláu í gulgrænt og að lokum í ljósbrúnan lit. Fræ losna auðveldlega úr fræreklum en könglar opnast á nokkrum dögum við stofuhita.

Fræþroski á berjatrjám og runnum er breytilegur eftir tegundum en einfalt er að miða við lit fullþroska aldins. Hreinsun fræja úr berjum er auðveld. Þá er allt aldinkjöt fjarlægt m.a. til að losna við efni sem hindra spírun. Einfaldast er að setja mjúk ber í plastpoka og kremja þau milli fingra eða undir kefli svo fræin losni. Rósanípur er auðvelt að opna (skera upp), láta þorna yfir nótt og tína þá fræin innan úr þeim, mynd 1. Þegar fræ berjaplantna hafa verið losuð þarf að þvo þau og hreinsa vel. Fíngert sigti og skolun undir rennandi vatni kemur að góðu gagni en lokahreinsum getur verið eftir að fræið er orðið yfirborðsþurrt en þá er hismið blásið burtu. Gráleit fræ og dekkri eru oft sýkt og ónýt.

Stór fræ, svo sem af eik, beyki og ýmsar hnetur, er best að taka stuttu eftir að fræfall hefst. Þau á aðeins að yfirborðsþurrka til að forðast myglu, rétt svo að vatnsglansinn hverfi.


Mynd 1. Fræ í rósarnípu.


Þessi fræ eru skammlíf og þurfa að halda eigin raka sem best. Stórum fræjum þarf að sá strax og örvun leyfir. Fræklasa, eins og af hlyni og aski, er best að taka þegar þeir eru um það bil að skipta um lit úr grænu í brúnt. Sama gildir um fræbelgi, t.d. af gullregni[1], sem heppilegt er að taka þegar fræið er að verða brúnt og áður en fræbelgirnir opnast.


Geymsla

Mikilvægt er að gera skýran greinarmun á geymslu og örvun. Ef geyma þarf fræ í langan tíma er fyrir flest tilfelli hentugt að geyma þau í ísskáp við 2-4°C. Reikna má með að fræ geti dvalið þar án mikilla affalla í a.m.k. 5 ár. Til þess þarf að þurrka fræið vel þannig að rakastig í fræi barrtrjáa verði 6-8% en 10-15% í fræi lauftrjáa. Þessu má ná með þurrkun við stofuhita í tvær til fjórar vikur. Að því loknu eru þau geymd í loftþéttum umbúðum. Mikilvægt er að geyma fræ við jafnt hita- og rakastig. Með hækkun rakastigs um 1% eða hitastigs um 5°C helmingast geymslutíminn. Ef einungis er þörf á því að geyma fræ í fáeina mánuði áður en þau eru sett í örvun dugir að léttþurrka þau í nokkra daga fyrir geymslu í ísskáp. Slík skammtíma geymsla getur verið til hagræðis ef þörf er talin á því að stilla af spírunartíma að vori.

Talið er að langflestar tegundir fræja megi þurrka, kæla niður fyrir frostmark og vekja af dvala alllöngu síðar. Þannig er mikið af norrænu plöntuerfðaefni í langtíma geymslu í Genbankanum í Alnarp í Svíþjóð og á Svalbarða í -18°C frosti en lágt rakastig kemur í veg fyrir að það gegnfrjósi.


Lok örvunartíma - spírun

Heitörvun að hausti og kaldörvun að vetri er náttúrulegt ferli til að geta mætt bestu skilyrðum til lífsbjargar að vori þegar hitastig, rakastig og loft til öndunar er ríkulega tiltækt í upphafi vaxtartímabils. Fræ skiptist í fræskurn, plöntufóstur (kím) og fræhvítu (forðanæringu). Með hækkun hita- og rakastigs fer spírunin af stað við það að vatn og loft berst inn um fræskurnina. Vaxtarferlið hefst með myndun kímrótar og kímstönguls. Þessu ferli má í stórum dráttum lýsa þannig að þegar vatn hefur náð í gegnum fræskurnina og nær til plöntufóstursins verður þar til boðefni (hormón - gibberelline). Boðefnið berst til ysta lags fræhvítunnar (e. aleurone lyer) þar sem til verður ensím (α-amylase) sem losar upp sterkju fræhvítunnar sem breytist í sykur sem verður drifkraftur vaxtar kímrótar og kímstönguls.


Sáning að hausti

Fræi er ýmist sáð að hausti eða vori. Eftirsóknarvert getur verið að skapa aðstæður til að sá fræi strax eftir að því er safnað og losna við að fara með það í gegnum stýrt örvunarferli. Sáning beint út í mörkina leiðir yfirleitt til mikilla affalla. Sáning í fræbakka með músheldu neti sem geymdir eru úti gefst yfirleitt nokkuð vel. Fræið tekur þá út nauðsynlega heitörvun og kaldörvun við náttúrulegar aðstæður. Sáning snemma að hausti undir gleri úti eða í köldu gróðurhúsi getur orsakað ótímabæra spírun ef haustmánuðirnir eru sólríkir. Kímplöntur sem spíra við slíkar aðstæður að hausti eða byrjun vetrar eru veikburða og þola illa vetrarfrost. Haustsáning í frostfríu og vel lýstu gróðurhúsi er yfirleitt árangursrík ef unnt er að stýra umhverfisþáttum þannig að kröfum um heit- og kaldörvun sé fullnægt.


Sáning að vori

Hér er við það miðað að fræi sem safnað er að hausti sé sáð að vori. Þá fer fræið í gegnum heit- og kaldörvun í stýrðu ferli sem yfirleitt gefur hvað bestan árangur enda eru náttúrulegar aðstæður þá hagstæðastar og unnt að fylgjast með og grípa inn í örvunar- og spírunarferlið eins og þurfa þykir. Að örvunartíma liðnum er fræinu sáð í mold þar sem það spírar. Eftirfarandi er lýsing á þessu ferli:


1. Heppilegt er að safna trjáfræi fljótlega eftir að aldinþroska er náð t.d. í september og október. Hentugt er að miða við að fræ sé tilbúð að hefja heit- og kaldörvun, eftir því sem við á, í byrjun nóvember eða fyrr.


Ekki er útilokað að fræ í örvun verði fyrir sýkingu, einkum ef raka- og hitastig er of hátt. Notkun vetnisperoxíðs[2] (H2O2) er ódýr og einföld leið til að eyða gróum og minnka líkur á því að upp komi sýking, en í örvun og í sáðbeði geta myndast kjöraðstæður fyrir sveppi. Grásveppur (Botrytis cinerea) er meðal helstu skaðvalda og er fljótur að éta innan úr fræskelinni. Hann er sérstaklega sólginn í rósafræ. Hans verður oft ekki vart á fræi fyrr en hann myndar dvalarhnýði og er þá öllum augljós, en þá er of seint að grípa til varna. Dvalarhnýðið er svartur kúlulaga vöxtur utan á fræinu um 1 mm í þvermál, mynd 2. Einnig getur sveppurinn lagst á kímplöntur og grandað þeim. Notkun vetnisperoxíðs er almennt ekki


Mynd 2. Dvalarhnýði grásvepps (Botrytis cinerea á rósarfræjum.


nauðsynleg fyrir flest trjáfræ og rétt rakastýring gerir notkun þess óþarfa. Hún er engu að síður hagkvæm forvarnaraðgerð fyrir áhugafólk og er talin geta flýtt fyrir spírun þar sem hún mýkir fræskelina. Því gæti verið til gagns að leggja fræ í vetnisperoxíðblöndu í t.d. tvær klst. eftir að fræ hefur verið hreinsað við upphaf örvunar. Ef sveppasýking kemur upp í sáðbeði er hún auðséð af smágerðum hvítum hárum sem þá myndast.


2. Fyrsta skrefið í örvunarferli er að vatnsupptaka. Fræ er þá látið liggja í (rennandi) vatni við stofuhita í allt að tvo sólarhringa. Rennandi vatn skolar óhreinindi og sýklum í burtu. Fræið dregur í sig vatn í gegnum fræskurnina, þyngist og fellur til botns. Fræ sem enn fljóta í vatnsbaði eftir tvo sólarhringa eru yfirleitt tóm og því ónýt. Mögulegt er þó að fræskurnin sé svo þétt að hún hleypi ekki vatni inn og þarf þá að rjúfa yfirborðið t.d. með veikri efnablöndu[3] eða jafnvel með þjöl svo móti fyrir fræhvítunni (eins mm breið rispa á breiðari enda fræsins fjærst fræfóstrinu dugar vel). Örvun er hafin með vatnsupptöku og síðar aukinni öndun.


3. Innan við helmingur algengra tegunda sem hér eru í almennri ræktun þurfa heitörvun. Flestar tegundir trjáa og runna þurfa aftur á móti kaldörvun. Kaldörvunartími tegunda er breytilegur og oft er hann á bilinu fjórar til tuttugu vikur. Fræ af lerki, greni og tveggja nála furutegundum geta komist af með fjögurra vikna kaldörvun. Ekki er sérstök ástæða til að sá þeim strax að þeim tíma liðnum þar sem lengri kuldadvöl kemur ekki að sök. Spírunin lætur bíða eftir sér þar til raki og hitastig hækkar.


Fyrir tegundir sem þurfa lengri kaldörvun, t.d. tuttugu vikur, er fræið ekki tilbúið til spírunar fyrr en um lok mars til apríl (miðað við að kaldörvun hefjist í nóvember) þ.e. um páska. Sá tími er mjög hentugur, t.d. fyrir spírun í köldu gróðurhúsi. Þá fer útihiti hækkandi og sólargangur að lengjast. Almennt má álykta að verulegt verklegt hagræði sé af því að kalla fram spírun ólíkra tegunda um svipað leyti, t.d. um páska eða síðar ef einhverjar aðstæður eru þá hagstæðari. Þó ber þess að gæta að almennt ætti að stefna að spírun fyrr að vori en síðar til að ná sem mestum þroska ungplantna að hausti fyrir vertardvala.


4. Við lok örvunar er fræinu sáð. Rétt rakastig í sáðbeði er mikilvægt. Of þurrt umhverfi kemur í veg fyrir spírun en of mikill raki dregur úr aðgengi lofts fyrir öndun og ýtir undir niðurbrot vefja og skapar aðstæður fyrir sýkla og sveppi. Hitastig ætti ekki að fara yfir 25°C. Hentugt hitastig fyrir spírun norðlægra tegunda er á bilinu 5-20°C og hitasveifla sem líkir eftir 5-10°C hitamun á dag- og næturhita er hvetjandi fyrir spírun.


Fræi er sáð í gataða sáðbakka eða potta ef magn er lítið. Heppilegt er að nota blöndu af sáðmold og meðalgrófum sandi. Sáðmold er næringarlítil og laus við framandi fræ (illgresi) en sandurinn tryggir loftun fyrir rætur og ræsingu á lausu vatni sem gæti annars orsakað sveppamyndun og rótarfúa. Moldin er vætt upp undir mettunarmörk og þjöppuð létt. Til að minnka líkur á sveppavexti í sáðbeði er gott að úða veiku vetnisperoxíði yfir það.


Mikilvægt er að ekkert laust vatn sé í moldinni en hún bindur meira en nægilegan raka fyrir upptöku fræsins. Fræi er sáð fremur gisið, t.d. þannig að í sáðbeði þeki það ekki meira en fjórðung af yfirborðinu. Meiri fjarlægð á milli fræja er betri og minnkar líkur á því að mygla dreifist á milli þeirra og veitir að auki hæfilegra vaxtarrými fyrir kímplöntur. Fræ er hulið með þunnu lagi t.d. af sáðmold sem m.a. heldur rakastigi jöfnu með því að tempra uppgufun. Þó gæti verið betra að þekjulagið sé grófara og laust við mjög fínkorna efni sem bætir viðnám gegn vatnsrofi við vökvun, leyfir hæfilega yfirborðsþurrkun og hindrar aðgengi sveppa. Víða tíðkast að þekja með þunnu lagi af svörtum sandi til að hækka hitastig í sáðbeðinu.


Heppileg þykkt þekjulags er um tvöfalt þvermál fræsins. Þunnt lag flýtir fyrir myndun kímblaða og upphafi ljóstillífunar en dýpri sáning auðveldar fræi aðgang að vatni til spírunar og minnkar hættu sem stafar af þornun. Varast þarf að sá of djúpt því hætta er á að kímstöngull nái þá ekki yfirborði eða verði rotsveppum að bráð. Því er hagkvæmt viðmið fyrir smátt og meðalstórt fræ að þekjulag verði ekki þykkara en ½ cm og að þekjulag fyrir stærri fræ verði allt að tvöfalt þvermál þeirra. Annað gildir um fræ birkis og elris sem er ljóssækið. Því er sáð á yfirborð og örþunnu lagi af fíngerðum vikursandi stráð yfir en glitta þarf í fræið.


5. Rótarflókasveppur (Rhizoctonia solani) er sjúkdómsvaldandi rotsveppur sem sækir á margar tegundir. Sveppurinn getur ráðist á spírandi fræ og drepið smáplöntur, en einnig étur hann sig inn í stöngul og rótarháls og veldur, ásamt öðrum sveppum (þar á meðal grásvepp), svonefndri svartrót (fallsýki, e. damping-off). Afföll í sáðbeði af völdum rótarflókasvepps eru fyrst og fremst afleiðing of mikils raka. Álitið hefur verið að til þess að forðast sveppasmit þurfi að nota sótthreinsaða, sýklalausa sáðmold[4] og ástunda hóflega vökvun. Ráðlegt er að sá fremur gisið og tryggja góða loftun. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sýklar berist í sáðbeð með loftstraumum eða fræinu sjálfu, mynd 3.Mynd 3. Sveppasýking á kímstöngli hlyns


6. Sáning í sérvalda sáðmold er sennilega tryggasta verklagið við spírun og vöxt kímplantna, en ekki eini kosturinn sem völ er á. Hér er á eftir er lauslega lýst þremur leiðum sem geta einnig hentað við spírun.


i) Spírun fræja án jarðvegs er að mörgu leyti ákjósanleg leið einkum ef spírunartími er breytilegur, fá fræ í boði og ef fræ mynda fljótt langar rætur. Þá er spírun sýnileg, hægt að koma spírandi fræjum í sérbýli fljótt og án affalla og tryggja því bestu aðstæður til uppvaxtar. Heppilegt verklag er að fræ fari í gegnum örvunarferlið og spírun við þessar aðstæður, en einnig getur heit- og kaldörvun verið aðskilið ferli eins og áður er lýst. Við spírun án jarðvegs er fræið lagt á rakan filtpappír, t.d. þykk eldhúsrúllublöð, sem felld eru laust yfir fræin í eins konar samloku.

Fræin eru þannig höfð á milli blaða í flötum plastpoka, mynd 4. Spírunin hefst nú við það að hitastig hækkar (úr 2-4°C í um 15-18°C), vatnsupptaka fræsins og öndun eykst og lífefnafræðileg ferli fara af stað eins og áður er lýst. Höfundur hefur m.a. notað þessa aðferðMynd 4. Spírun án jarðvegs.
Mynd 5. Fræ af hlyn – fræskurn hefur verið fjarlægð.


við spírun hlyns og asks og einnig náð að flýta spírun með því að fjarlægja fræskurnina, mynd 5.

Færsla spírandi fræja úr jarðvegslausu umhverfi yfir í uppeldisstað er að því leyti frábrugðin venjulegri prikklun að þegar spírandi fræ eru flutt er kímrótin rétt að birtast og best er að hún sé innan við 3 mm að lengd. Þetta kallar á að vakta þarf fræbeð og flytja þaðan daglega spírandi fræ yfir á uppeldisstað, í t.d. fjölhólfa bakka. Þar eru fræin lögð með rótarvísinn niður á við og fyllt yfir.


ii) Spírun í mosa er að mörgu leyti svipuð aðferð. Við það er miðað að spírun verði í léttrökum „spagnum“ mosa (eða íslenskum barnamosa) einum og sér. Út frá rýmisþörf er sennilega heppilegt að fræið hafi lokið heit- og kaldörvun áður en það er fært í jarðvegslausan mosann. Þar er fræinu blandað jafnt um mosann og segja má að fræin eigi að svífa í rökum mosanum. Þegar fræin spíra eitt af öðru eru þau færð í sérbýli í sáðmold. Þessi aðferð hefur m.a. verið notuð við spírun lyngrósafæra.


iii) Þriðja leiðin er spírun fræs í léttrökum vikri eða jarðvegsblöndu, sem að jöfnum hluta er sáðmold og meðalgrófur hreinn sandur. Fræinu er blandað vel saman við jarðveginn og þess gætt að dreifing þess sé jöfn í jarðvegsmassanum. Til þess að auðvelt sé að fylgjast með þróun mála má fræið ekki vera falið í jarðveginum og ætti jarðvegsmagnið því ekki að vera meira en t.d. fjórfalt rúmmál fræsins.


Þessi aðferð hentar einkum fyrir haustsáningar. Jarðvegsblandan er þá útbúin að hausti og hún geymd á skuggsælum stað við um 10-15 °C hita eða í ísskáp við 2-4°C, eftir því hvort heitörvunar er þörf eða ekki. Vitja þarf fræblöndunnar reglulega (t.d. hálfsmánaðarlega) til að meta rakastig (þornun), spírun og líkur á myndun myglu. Þessi aðferð er valin vegna þess að spírunarferlið er sýnilegra en þegar sáð er beint í bakka og fræið hulið. Þegar um tíundi hluti fræs í jarðvegsblöndunni hefur spírað er fræblandan oft flutt í sáðbeð til frekari spírunar, en ávinningur þess er fyrst og fremst verklegt hagræði.


Nokkrar örvunartölur

Í þeim tilgangi að skýra betur tímaþörf örvunar nokkurra ættkvísla og tegunda er eftirfarandi tafla dregin upp en hún sýnir meðaltalsgildi og efri og neðri mörk örvunartíma í vikum. Fræ sömu tegundar spíra ekki öll á sama tíma og getur spírunartími staðið yfir í margar vikur eins og taflan sýnir. Þetta skýrist af því að til þess að auka afkomulíkur tegundar er nauðsynlegt að fræin spíri við nokkuð breytilegar aðstæður sem skapast með tímanum. Ef sóst er eftir hámarks nýtingu lifandi fræja ætti að velja frædvala skv. hámarks örvunartíma hverrar tegundar. Örvunartíminn í þessari töflu miðar við aðstæður í Skotlandi og eru fengnar frá skosku skógastjórninni (Forestry Commission) [5].
Ættkvísl / tegund* heitörvun (vikur) kaldörvun (vikur) Abies þinur 0 8 (6-12) Acer garða- og broddhlynur* 0 12 (12-20) Alnus elri 0 6 (3-9) Betula birki 0 6 (3-9) Castanea kastanía 0 0 Chamaecyparis fagursíprus* 0 6 (3-9) Cornus mjallhyrnir* 0 14 (12-20) Cornus dreyrahyrnir* 8 (8-12) 12 (12-20) Corylus hesli 0 16 (16-20) Crataegus þyrnir 8 (4-12) 26 (24-32) ** Fagus skógarbeyki* 0 16 (12-20) Fraxinus evrópuaskur* 16 (8-16) 20 (16-32) ** Ilex kristþyrnir* 40 (28-52) 24 (20-52) ** Juniperus einir 40 (12-52) 24 (12-36) ** Larix lerki 0 6 (3-9) Malus skógarepli* 2 14 (8-16) Picea greni 0 6 (3-9) Pinus fura 0 6 (3-9) Pinus balkanfura* 0 30 (20-40) ** Prunus kirsi 2 (2-8) 18 (16-24) Pseudotsuga degli 0 6 (3-9) Quercus eik 0 0 Rosea rósir 12 (8-12) 12 (8-12) Sorbus ilmreynir* 2 (2-4) 30 (16-30) +++ Sorbus silfurreynir* 2 (2-4) 16 (12-16) Taxus ýr 24 (20-52) 40 (32-52) ** Thuja risalífviður* 0 6 (3-9) Tilia lind 16 (16-20) 16 (16-20) ** Tsuga marþöll* 0 6 (3-9) Ulmus álmur 0 8 (8-12) Viburnum lambarunni* 0 10 (8-12)

-----------------------

*Þegar tegundaheiti er nefnt er vísað til þess að örvunartími geti verið breytilegur innan ættkvíslar.

**Tegundir sem líklega spíra á öðru ári.

+++Gera má ráð fyrri að fræ af ilmreyni spíri að hluta til fyrsta vorið og síðan einnig á öðru vori.
Lokaorð

Í þessari umfjöllun hefur verið leitast við að skýra frædvala og aðferðir til að örva fræ af trjám og runnum til spírunar. Þá er hér í lokin sett fram álit höfundar um hvernig megi einfalda og létta verklag við meðferð fræs af norðlægum tegundum og losna undan flóknum leiðbeiningum. Líta ber á þetta álit sem einfaldan valkost en jafnframt er lögð áhersla á að til þess að hámarka árangur er ætíð best að fylgja tiltækum leiðbeiningum um örvunartíma. Neikvæð afleiðing þessarar einföldunar gæti komið fram í lægra spírunarhlutfalli. Á grundvelli þessara skýringa og augljósra takmarkana er eftirfarandi álit sett fram um frædvala og örvun:


1. Gengið er út frá því að flest fræ af algengum norðlægum tegundum megi meðhöndla í örvun á svipaðan hátt. 2. Gert er ráð fyrir að örvunartími hefjist eigi síðar en 1. nóvember. Fyrr er betra. 3. Fræinu er þá skipt í tvo hópa annarsvegar því sem þarf heitörvun og hinsvegar því sem fer beint í kaldörvun. 4. Fræ þeirra tegunda sem þurfa heitörvun til að ná fósturþroska eru sett í örvun við 10-15°C hita fram yfir áramót, í um 9 vikur. 5. Um áramót eru þau fræ sem verið hafa í heitörvun flutt í ísskáp til kaldörvunar með öðrum fræjum (sem eingöngu þurftu kaldörvun) og geymd þar við 2-4°C fram yfir páska í um 12-14 vikur til viðbótar. Þá hefur allt fræ fengið örvun í samtals 21-23 vikur. 6. Fræi af öllum tegundum er því næst komið í spírun og sáð. Fyrstu kímblöðin ættu að skjóta upp kolli í sumarbyrjun. 7. Þau fræ sem þurfa lengri heitörvun en í boði var um veturinn (þ.e. 9 vikur sbr. framangreint) verða áfram í sáðbeði á góðum geymslustað fram að vori árið eftir. Ef spírun lætur þá enn bíða eftir sér er góð regla, ef pláss leyfir, að láta fræið liggja óhreyft fram á þriðja vorið. 8. Ef ekkert gerist á öðru og þriðja vori er lærdómsríkt að skera fræ í tvennt og athuga innri gerð þess t.d. hvort fræskelin sé tóm eða fræfóstrið dautt.


Höfundur hefur um nokkurra ára skeið fylgt framangreindu verklagi við örvun og sáningu allra þeirra tegunda sem upp eru taldar í töflunni um nokkrar örvunartölur. Kristþyrnir er sá þeirra sem þarf lengstan örvunartíma (eins og suðlægur uppruni hans bendir til) eða 28-52 vikur fyrir heitörvun og 20-52 vikur fyrir kaldörvun. Þrátt fyrir að heitörvunartími fræja kristþyrnisins hafi aðeins verið um níu vikur fyrsta haustið var spírum á öðru vori, eftir eitt sumar og annan langan vetur, nokkuð góð en þá spíraði um það bil helmingur af sáðum fræjum. Ekki var sáðbakkinn geymdur lengur þótt uppgefnir hámarks örvunartímar hafi e.t.v. gefið tilefni til þess að hann yrði geymdur fram á þriðja vorið.


Þakkir

Hirti Þorbjörnssyni, forstöðumanni Grasagarðsins í Reykjavík, eru færðar þakkir fyrir vandaðan yfirlestur og gagnlegar ráðleggingar um það sem betur mátti fara.

[1] Fræ af gullregni þarf sérstaka meðhöndlun vegna vatnsheldrar fræskurnar sem m.a felst í því að ýfa yfirborðið með sandpappír eða hella yfir það sjóðandi vatni (sjá leiðbeiningar á netinu). [2] Fyrir almenna notkun er í leiðbeiningum mælt með styrk sem fæst með því að blanda tveimur matskeiðum (30 ml) af vetnisperoxíði, með 3% styrkleika, út í einn lítra af vatni. Fræ má hafa í þessari upplausn í allt að fjóra klst. Þessi blanda nýtist einnig síðar t.d. til að losna við myglu af laufblöðum og mold. Vetnisperoxíð skilur ekki eftir sig eiturefni – það verður að vatni og gefur frá sér súrefni. Reynsla höfundar er að ef mygla kemur upp í sáðbeði megi nota sterkari blöndu á kímplöntur. Mikilvægt er að eyða óværunni strax og hefur blandan þá verið ein matskeið (15 ml) af vetnisperoxíði út í 0,2 lítra af vatni. Alltaf er notuð fersk blanda þar sem vetnisperoxíð hverfist á stuttum tíma í dagsljósi. Þessi sterkari blanda hentar ekki ef fræ er að spíra í mold. Fræ í spírunarferli liggja þá e.t.v. í vökvamettaðri mold sem skemmir þau. Slíkt getur leitt til afmyndunar á kímblöðum og vanþroska. Kímblöð sem loftar um þorna aftur á móti fljótt. [3] Til að mýkja þykka fræskurn og eyða sýklum er unnt að nota vetnisperoxíð eða venjulegt bleikiklór (NaOCl) sem ætlað er til heimilisnota (5%). Það þarf að þynna með fimm hlutum af vatni á móti einum hluta af bleikiklóri. Fræ er aðeins látið standa í klórblöndu í 10 mínútur eða skemur og skolað vel að því loknu. Einungis þeir sem vanir eru að umgangast bleikiklór ættu að nota það við meðhöndlun fræja. Bleikiklór er ekki umhverfisvænt og skilur eftir sig spor í jarðvegi en það brotnar niður í venjulegt matarsalt (NaCl) og súrefni. [4] Í seinni tíð hafa komið upp efasemdir um kosti þess að sótthreinsa sáðmold með því að hita hana í ofni og eyða öllu lifandi sem í henni finnst. Bent hefur verið á að örveruflóra moldarinnar sé margbreytileg og auk skaðvalda sé þar einnig að finna gró af nytsömum sambýlissveppum og örverur sem gagnast fræi og ungplöntum vel og m.a. verja þær fyrir ásókn illskeyttari örvera og sýkla. [5] Gosling, P.G. (2007). Raising trees and shrubs from seed. Forestry Commission Practice Guide 18, Forestry Commission Edinburgh UK.

175 views0 comments

Comentarios


bottom of page